Hinn dæmigerði Bogmaður er athafnamaður sem þarf hreyfingu, líf og fjölbreytni. Honum er illa við vanastörf og verkefni sem ekki eru ögrandi. Hann fær leið á því sem hann kann og veldur of auðveldlega. Að sama skapi á hann erfitt með að sitja lengi kyrr á sama staðnum. Hann þarf svigrúm og frelsi. Allt það sem þrengir sjóndeildarhring hans, festir hann niður og hindrar hreyfingu orkar þvingandi á hann.
Þekkingarleit
Eitt sterkasta einkenni Bogmannsins er fróðleiksþorsti. Hann vill kynnast heiminum, þráir þekkingu og vill hafa yfirsýn yfir margvíslegustu málefni. Hann nýtur þess að ferðast, læra og fást við verkefni sem víkka sjóndeildarhring hans.
Eirðarleysi
Þrátt fyrir áhuga á þekkingu eru sumir Bogmenn lítið fyrir langskólanám og þá sérstaklega nám sem er einhæft og afmarkað. Þetta má ekki túlka á þann veg að öllum Bogmönnum leiðist skólaganga. Það er ekki rétt, því margir njóta þess að svala forvitni sinni í fjölbreyttu námi og taka slíkt fram yfir einhæf störf á vinnumarkaði.
Hreyfing og stórhugur
Það má segja að til séu tvær algengar gerðir Bogmanna. Annars vegar er kraftmikill íþróttamaður sem leggur á unga aldri stund á fjöldann allan af greinum. Síðar fer hann út í atvinnulífið af sama krafti og leggur áfram áherslu á hreyfingu, frelsi og fjölbreytni. Hins vegar er það hinn huglægi Bogmaður sem leitar fróðleiks og tilbreytingar í bókum, námi, heimspeki, ferðalögum, menningu og listum. Stundum sameinast þetta tvennt í einum og sama manninum. Hver svo sem áherslan er nákvæmlega þá er Bogmaðurinn oftast stórhuga og takmarkalítill í hugsun og gerðum.
Bjartsýni
Bogmaðurinn er að öllu jöfnu jákvæður, hress og bjartsýnn. Hann er þægilegur í umgengni og þykir skemmtilegur félagi. Hann er lítið gefinn fyrir að búa til vandamál og vill sjá og sér bjartari hliðar tilverunnar. Hann er því oft líflegur og hressilegur. Það er oft sagt um Bogmanninn að hann sé heppinn. Það er líklega vegna þess að hann er glaðlyndur og því finnst fólki gaman að gera honum greiða. Einnig fer hann víða, prófar margt og er opinn fyrir tækifærum. Hann þorir að breyta til og takast á við ný verkefni.
Fjölbreytni
Til að viðhalda lífsorku sinni og endurnýja hana þarf Bogmaðurinn að búa við fjölbreytta lífshætti. Hann þarf að skipta reglulega um umhverfi, ferðast og vera frjáls, eða þarf að minnsta kosti að hafa það á tilfinningunni að hann geti gengið út hvenær sem er. Höft og vanabinding leiða til þreytu, nýjungar skapa lífsgleði og auka kraft hans.
Þegar talað er um 'Bogmanninn' og Bogmann', er átt við þá sem fæddust þegar Sólin var í Bogmannsmerkinu. Þeir einstaklingar sem fæddust á þeim árstíma hafa 'hjartað' í þessu merki, eða grunneðlið og lífsorkuna.
Staða Tunglsins í merki segir til um tilfinningar, staða Merkúrs um hugsun, Venusar um ást og samskipti, Mars um framkvæmdir, Rísandi merkis um framkomu og staða Miðhimins um (þjóðfélags)markmið. Hver einstakur maður er í nokkrum stjörnumerkjum og þess vegna eru gerð stjörnukort, en ekki bara fjallað um stjörnumerkin
Hvað finnst ykkur, á þetta við mig?
-Brynhildur
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.